Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari hefur sent innanríkisráðuneytinu bréf og óskað eftir ítarlegri gögnum vegna kæru sem ríkissaksóknara hefur borist. Meintur leki á persónuupplýsingum um hælisleitanda var kærður.

„Eftir að hafa farið vandlega yfir svör innanríkisráðuneytisins við fyrirspurn ríkissaksóknara, vegna kæru um meðferð persónuupplýsinga, sem bárust ríkissaksóknara með bréfi dagsettu 20. þ.m., taldi ríkissaksóknari nauðsynlegt að fá frekari gögn og upplýsingar frá innanríkisráðuneytinu, áður en endanleg ákvörðun verður tekin um það hvort málinu verði vísað til lögreglurannsóknar,“ segir á vef ríkissaksóknara í dag.