Endurupptökunefnd hefur nú til meðferðar beiðni Ólafs Ólafssonar, eins sakborninganna í Al Thanimálinu, um að málið verði tekið upp að nýju þar sem hann telur sönnunargögn í málinu hafa verið ranglega metin í dómi Hæstaréttar. Nýlega óskaði nefndin eftir umsögn ríkissaksóknara til beiðninnar og skilaði hann afstöðu sinni í byrjun síðasta mánaðar.

Í umsögn sinni segist ríkissaksóknari telja að Ólafur hafi ekki leitt verulegar líkur að því að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á nið­urstöðu þess. Það sé því mat ríkissaksóknara að skilyrði til endurupptökunnar séu ekki uppfyllt og hafna beri beiðninni.

Rangt mat skipti engu um niðurstöðuna

Ólafur heldur því fram að Hæstiréttur hafi lagt rangt mat á símtal tveggja manna – Bjarnfreðs Ólafssonar og Eggerts Hilmarssonar – þar sem annar vísar til samtals við ótilgreindan mann sem kallaður var „Óli“, um tiltekna þætti við­ skiptanna sem málið tók til. Í vitnisburðum fyrir héraðsdómi og öðrum sönnunargögnum málsins komi skýrt fram að þar hafi verið átt við Ólaf Arinbjörn Sigurðsson lögmann. Þrátt fyrir þá staðreynd hafi Hæstiréttur talið að vísað hafi verið til Ólafs Ólafssonar, og byggt sakfellingu sína gegn Ólafi alfarið á þeirri villu. Þá hafi Bjarnfreður sjálfur staðfest að átt hafi verið við Ólaf Arinbjörn.

Í umsögn sinni segir ríkissaksóknari að þetta sé rangt og augljóst sé að rætt hafi verið um Ólaf Ólafsson. Það sé hægt að ráða af samhengi samtalsins. Auk þess segir ríkissaksóknari að unnt sé að ráða af umtöluðu símtali að Ólafur Arinbjörn hefði ekki komið að málinu fyrr en eftir að það átti sér stað. Því liggi fyrir að sönnunargögn hafi ekki verið rangt metin í dómi Hæstaréttar, og jafnvel þótt gögnin hefðu verið rangt metin hefði það engu skipt um niðurstöðu dómsins þar sem fjölmörg atriði önnur rökstyddu sakfellingu. Þau atriði eru hins vegar ekki tilgreind sérstaklega í rökstuðningi ríkissaksóknara.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .