Ríkissáttasemjari hefur boðað fund milli fulltrúa Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) og Icelandair næsta föstudag eftir að félagsmenn FFÍ felldu nýjan kjarasamning fyrr í dag .

Greidd atkvæði gegn kjarasamningnum voru 72,65% en greidd atkvæði með honum voru 26,46%. Kjörsókn var 85,3% en 0,89% skiluðu auðu, samkvæmt frétt RÚV .

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður FFÍ, segist ekki geta tjáð sig um efnistök kjarasamningsins en segir ljóst að félagsmenn telji kröfur Icelandair hafa gengið of langt.

„Það er erfitt að segja til af hverju [félagsmenn felldu samninginn] en ég myndi halda að félagsmenn telji of langt gengið í þeim hagræðingarkröfum sem fólust í þessum nýja samningi,“ segir Guðlaug.