Gert er ráð fyrir því í nýju fjárlagafrumvarpi að arðgreiðsla frá fjármálastofnunum í eigu ríkisins verði 11.840 milljónir króna á næsta ári. Þetta er rúmum 3,7 milljörðum krónum meira en gert var ráð fyrir að ríkissjóður fengi í arð frá bönkunum í fyrra. Ljóst er að væntar arðgreiðslur voru verulega vanmetnar í fjárlögum fyrir þetta ár enda námu þær í heild rúmlega 21,1 milljarði króna þegar bankarnir greiddu arð í vor .

Ríkið á 97,7% hlut í Landsbankanum og fékk ríkið tæpa 19,7 milljarða króna frá honum á þessu ári. Arðgreiðslur frá hinum bönkunum eru talsvert lægri enda á ríkið talsvert minni hlut í þeim. Af 13% hlut ríkisins í Arion banka fékk ríkissjóður rúmar 987 milljónir króna og 461 milljón í krafti 5% eignahlutar í Íslandsbanka.

Peter Dohlman, yfirmaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á Íslandi kom inn á arðgreiðslur bankanna til ríkisins þegar hann ræddi um stöðu hagkerfisins í maí síðastliðnum. Hann sagði sagði m.a. að vegna óróleika sem kunni að fylgja í kjölfar afnáms hafta þá verði bankar að vera búnir að treysta bakland sitt, s.s. að styrkja eiginfjárhag sinn með þaki á arðgreiðslum. Már Guðmundsson seðlabankastjóri kom sömuleiðis inn á arðgreiðslurnar í vor og sagði bankaskattinn rýra afkomu bankanna. Af þeim sökum verði að stilla arðgreiðslum í hóf.