Ríkissjóður fékk í sínar hendur eignarhlut í 16 félögum í gegnum stöðugleikaframlög slitabúa viðskiptabankanna þriggja auk minni slitabúa. Þetta kemur fram í fyrirspurn Viðskiptablaðsins til fjármálaráðuneytisins.

Verðmætin, sem slitabú viðskiptabankanna þriggja auk minni slitabúa lögðu fram í tengslum við gerð nauðasamninga, má í meginatriðum flokka í þrennt, laust fé, framsalseignir og fjársópseignir.

Fjársópseignir eru eignir sem verða í vörslu og umsýslu slitabúanna en andvirði þeirra, í formi reiðufjár, rennur til ríkissjóðs eftir því sem það fellur til. Ráðuneytið segir að því sé óheimilt samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki að miðla upplýsingum um þessar eignir.

Framsalseignir hins vegar eru þær eignir sem hafa verið framseldar til ríkissjóðs. Í flokki framsalseigna eru hlutir í eftirtöldum félögum og sjóðum:

  • ALMC eignarhaldsfélag ehf.
  • Auður Capital
  • Bru II Venture Capital Fund
  • DOHOP
  • Eimskip
  • Eyrir ehf.
  • Íslandsbanki hf.
  • Internet á Íslandi
  • Klakki ehf.
  • Lyfja hf.
  • Nýji Norðurturninn ehf.
  • Reitir hf.
  • S Holding ehf.
  • SAT eignarhaldsfélag hf.
  • SCM ehf.
  • Skipti hf.

Auk þess þá fær ríkissjóður skuldabréf sem eru skráð á Arion banka, Ríkissjóð ríkisbréf, Hitaveita Suðurnesja, Lánasjóður sveitarfélaga. Einnig er um að ræða óskráð skuldabréf sem Kaupþing gefur út til ríkissjóðs, með veði í hlutabréfum Arion banka. Í tengslum við sölu á Arion banka fær ríkissjóður stighækkandi hlutdeild í hagnaði af sölu hans. Ríkissjóður fær vaxtatekjur af skuldabréfi Kaupþings.

Greina ekki frá kröfum á einstaklinga

Ráðuneytið greinir einnig frá því að einnig séu í flokki flokki framsaleigna ýmsar kröfur á einstaklinga og kröfur á 38 félög, sem eðlilegt þykir að leynt fari samkvæmt upplýsingalögum.

Fyrir helgi voru samþykkt lög sem kváðu á um það að sérstakt félag yrði stofnað til að annast umsýslu, fullnustu og sölu framsalseigna, að frátöldum eignahlutum í Íslandsbanka, og eftirlit með fjársópseignum. Það er unnið að stofnun félagsins og mun stjórn þess í framhaldinu fara með eigandavald, f.h. ríkissjóðs, í þeim félögum sem eru hluti af framsalseignum og taka þær ákvarðanir sem nauðsynlegt er að taka á hluthafafundum einstakra félaga, þ.m.t. að taka ákvarðanir um kjör stjórna.