Ríkissjóður innheimti tekjur fyrir tæplega 205 milljarða króna á fyrsta fjórðungi ársins en það er aukning um 24% milli ára. Á sama tíma greiddi hann 177 milljarða króna í gjöld. Tekjujöfnuður ríkisins var því jákvæður um 27,8 milljarða íslenskra króna. Þetta kemur fram í fjórðungsuppgjöri ríkissjóðs.

Að undanskildum tekjum af stöðugleikaframlagi voru innheimtar tekjur tæpir 163 milljarðar króna en það er lækkun um 1,3% milli ára. Það er einna helst arðgreiðsla Landsbankans sem var greidd í marsmánuði í fyrra sem olli því að tímabilið í ár er lægra en árið á undan.

Í skýrslunni segir að umfangsmiklur óreglulegir liðir á borð við stöðugleikaframlög og arðgreiðslur geri það að verkum að skekkt mynd fáist af rekstri ríkissjóðs þegar bera á reksturinn saman við frammistöðu síðasta árs.

Handbært fé frá rekstri var jákvætt um 9,6 milljarða króna, en á síðasta ári var það neikvætt um 43 milljarða króna á sama tímabili. Lántökur námu 8,5 milljörðum króna en voru 25 milljarðar árin tvö á undan.

Lesa má greiðsluafkomuna í heild sinni með því að smella hér.