*

mánudagur, 18. nóvember 2019
Innlent 20. desember 2016 18:30

Ríkissjóður mun hagnast um tíu milljarða

Kadeco hefur selt Íslenskum fasteignum ehf. íbúða- og atvinnuhúsnæði á Ásbrú. Kadeco hefur hingað til lokið við sölu á um 93% þess húsnæðis sem félagið hefur haft til umsýslu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Kadeco hefur selt Íslenskum fasteignum ehf. íbúða- og atvinnuhúsnæði á Ásbrú fyrir 5 milljarða króna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Kadeco, en félagið Íslenskar fasteignir ehf. fer fyrir hópi fjárfesta.

Eignirnar voru settar í opið söluferli síðastliðið vor, en um er að ræða húsnæði sem skráð er á samtals 231 fastanúmer eða um 28% af heildarfermetrafjölda þess húsnæðis sem Kadeco hefur haft umsýslu með fyrir hönd íslenska ríkisins.

Samkvæmt fréttatilkynningunni eru fasteignirnar í mismunandi ástandi og fyrir liggur að fjárfesta þurfi í viðhaldi og endurbótum á þeim á næstu árum. Áætlun Kadeco gerði ráð fyrir að fjárfesta þyrfti um tveimur milljörðum króna í því skyni.

Kadeco, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, var stofnað af íslenska ríkinu 24. október 2006 í þeim tilgangi að taka við landi og eignum Bandaríkjahers, sem ekki yrðu nýttar áfram til flugvallarreksturs eða í öryggissamstarfi Norður-Atlantshafsbandalagsins eftir lokun herstöðvarinnar. Síðan þá hefur félagið unnið að uppbyggingu og þróun svæðisins.

Með sölunni hefur Kadeco lokið við að selja um 93% þess húsnæðis sem félagið hefur haft til umsýslu á Ásbrú fyrir hönd ríkissjóðs. Frá þeim tíma hafa fasteignir verið seldar til 38 mismunandi aðila í opnu söluferli.

Heildarsöluandvirði eignanna frá upphafi nemur samtals um 17,6 milljörðum króna. Þar af hefur Kadeco undanfarin tvö ár selt eignir fyrir 8,5 milljarða. Ætla má að hreinar tekjur Ríkissjóðs af sölu eigna sinna á Ásbrú muni á endanum nema ríflega 10 milljörðum króna.

Stikkorð: Fasteignir Ásbrú Kadeco