Samkvæmt nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2023-2027 er gert ráð fyrir að ríkissjóður verði áfram rekinn með halla út árið 2027, en stefnt er að því að draga jafnt og þétt úr afkomuhallanum. Þá stefnir ríkisstjórnin að því að stöðva hækkun skulda hins opinbera í hlutfalli af vergri landsframleiðslu „eigi síðar en árið 2026. Þannig er grunnurinn treystur á ný og samfélagið betur í stakk búið til að takast á við óvænt áföll framtíðar,“ segir í tilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

„Það verður viðvarandi verkefni næstu ára að standa vörð um afkomu ríkissjóðs og endurheimta sjálfbærni ríkisfjármálanna í kjölfar heimsfaraldurs. Halli á ríkissjóði og hinu opinbera í kjölfar faraldursins reynist þó mun minni en áður var talið.“

Á tímabili fjármálaáætlunarinnar vega útgjöld til heilbrigðismála þyngst eða 31%. Útgjöld til félags-, húsnæðis- og tryggingarmála nema 27%. Útgjöld til mennta- og menningarmála nema 12% af heildinni.

„Alls er gert ráð fyrir að uppsöfnuð aukning rammasettra útgjalda nemi 69 milljörðum króna frá fjárlögum 2022 til ársins 2027, eða sem nemur 7% aukningu á föstu verðlagi ársins 2022.“

Fram kemur að 25 milljörðum króna verður varið í að viðhalda stuðningi við rannsóknir og nýsköpun. Þá verður lagt 22 milljarða króna til viðbótar í verkefni tengdum byggingu nýs Landspítala, meðal annars vegna tækjakaupa.

Ráðuneytið segir að veruleg tækifæri liggi í nýtingu tæknilausna, fjarþjónustu og stafvæðingu, sameiningu stofnana og aukinni samlegð í innkaupum og rekstri kerfa. Áætlaður árlegur ávinningur stafvæðingar í formi hagræðingar og aukinnar skilvirkni í ríkisrekstri hefur verið metinn 9,6 milljarða króna á ári í kjölfar fimm ára fjárfestingarátaks sem nú stendur yfir.

„Þá er gert ráð fyrir að óbeinn ávinningur samfélagsins alls, s.s. í formi styttri málsmeðferða hjá opinberum stofnunum auk tímasparnaðar fólks og fyrirtækja gæti numið allt að 20 milljörðum króna.“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:

„Með hóflegum útgjaldavexti en sókn í opinberri fjárfestingu, öflugum stuðningi við nýsköpun, rannsóknir og þróun og hagfelldu umhverfi fyrir vaxtarsprota samfélagsins leggjum við grunn að nýju hagvaxtarskeiði. Á grundvelli þessarar fjármálaáætlunar höldum við áfram að fjárfesta í öflugu samfélagi, en treystum á sama tíma grunninn til að mæta óvæntum áföllum framtíðar.

Áhersla verður lögð á að koma böndum á verðbólgu, tryggja stöðugleika í hagkerfinu og stuðla þannig að hóflegu vaxtastigi fyrir heimili og fyrirtæki. Þar gegnir gott samspil ríkisfjármála, peningastefnu og vinnumarkaðar lykilhlutverki.“