Fjármálaráðuneytið hefur ráðið Deutsche Bank, JP Morgan og UBS til að standa fyrir kynningu á meðal fjárfesta í Evrópu og Bandaríkjunum og kanna áhuga þeirra á skuldabréfaútgáfu ríkissjóðs í erlendri mynt.

Samkkvæmt heimildum Reuters-fréttastofunnar verður fjárfestakynningunni ýtt úr vör á mánudag í næstu viku, 30 apríl.

Rifjað er upp að ríkið gaf út skuldabréf í bandaríkjadölum upp á einn milljarð til fimm ára í júní í fyrra. Barclays, Citigroup og UBS sáu um skuldabréfaútgáfuna.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fjölmiðlafulltrúi fjármálaráðuneytisins, sagði í samtali við Viðskiptablaðið ráðuneytið ekki geta tjáð sig um málið að svo stöddu af lagatæknilegum ástæðum.