Fjármögnunarkostnaður ríkissjóðs hefði verið 4% meiri ef hann hann hefði fjármagnað sig með verðtryggðum ríkisbréfum, en þetta jafngildir 35 milljörðum króna m.v. núverandi verðlag. Þetta kemur fram í sérriti með Markaðsupplýsingum sem Seðlabanki Íslands gaf út í dag.

Þessi niðurstaða byggir á óbirtri rannsókn Kjartans Hanssonar, starfsmanns Lánamála ríkisins um hagkvæmni óverðtryggðrar ríkisbréfaútgáfu á árunum 2003 til 2014. Í rannsókninni var kannaður ábati/kostnaður ríkissjóðs á því að hafa gefið út óverðtryggð bréf í stað verðtryggðra á árunum 2003 til 2014.

Niðurstaðan var sú að óverðtryggðar útgáfur voru ódýrari fjármögnun fyrir ríkissjóð á tímabilnu. Ef tímabilinu var brotið upp í tvö tímabil, 2003-2008 og 2008-2014 kemur í ljós að ábatinn af fyrra tímabilnu var 28 milljarðar króna en 7 milljarðar af síðara tímabilnu.

Rannsóknin kemst að öndverðri niðurstöðu við aðrar sambærilegar erlendar rannsóknir. Sérstaklega er bent á að rannsóknin horfi til baka á sérstakt tímabil í íslenskri fjármálasögu en verðbólgan sem kom í kjölfar bankahrunsins 2008 leiddi til þess að útistandandi óverðtryggðar útgáfur báru lægri raunvexti en verðtryggðar útgáfur. Einnig sé rétt að hafa í huga að þessi niðurstaða þýðir ekki endilega að óverðtryggðar útgáfur haldi áfram að vera hagkvæmari fjármögnunarleið fyrir ríkissjóð.