Ríkissjóði verður heimilt að taka allt að 500 milljarða króna lán, annað hvort í erlendum gjaldmiðlum eða í krónum, samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Markmið frumvarpsins er í fyrsta lagi að endurlána Seðlabankanum til að styrkja gjaldeyrisvarasjóð hans. Í öðru lagi að efla útgáfu innlendra ríkisverðbréfa með það að markmiði að auka virkni skuldabréfa - og gjaldeyrismarkaðar.

Ekki liggur fyrir hvort heimildin verður nýtt að fullu, né þá heldur hvort hún verður nýtt í einu lagi eða í áföngum. Í ljósi þess hins vegar að lántökur ríkissjóðs eru háðar samþykki Alþingis þótti vissara að hafa heimildina tiltölulega háa, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins.

Miðað er við að frumvarpið fari í flýti í gegnum þingið. Frumvarpið fari í fyrstu umræðu á morgun, þriðjudag og verði afgreitt síðar í vikunni. Það hefur verið kynnt formönnum þingflokkanna og afgreitt úr þingflokkum stjórnarflokkanna. Fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen mælir fyrir frumvarpinu.

Hér má sjá frumvarpið í heild sinni.