Ríkissjóður þarf að öllum líkindum að greiða út yfir 50 milljarða á morgun vegna gjalddaga ríkisbréfa.

Erlendir fjárfestar geta væntanlega á sama tíma keypt gjaldeyri fyrir upphæð sem samsvarar vaxtagreiðslum til þeirra, og gætu þau kaup hlaupið á 6-8 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis í morgun.

„Slíkir vaxtagreiðsludagar virðast raunar vera eina leið erlendra fjárfesta til að selja krónur fyrir erlendan gjaldeyri um þessar mundir,“ segir í Morgunkorni.

„Vaxtagjöld teljast til þáttagjalda og falla því innan þeirrar skilgreiningar Seðlabankans á gjaldeyrisviðskiptum tengdum viðskiptajöfnuði sem heimilar eru samkvæmt nýlegum reglum bankans.“

Kaupa útlendingar gjaldeyri?

Þá segir Greining Glitnis að miklar vangaveltur hafi verið á markaði um hvort veruleg gjaldeyriskaup muni eiga sér stað á morgun samhliða gjalddaga ríkisbréfaflokksins RIKB 08 1212.

„Líklega má rekja veikingu krónunnar í gær og fyrradag að einhverju leyti til þess að seljendur gjaldeyris haldi að sér höndum fram á morgundaginn í von um að fá þá betra verð fyrir hann,“ segir í Morgunkorni.

Þá kemur fram að áhugi fjárfesta á nýjum ríkisbréfaflokki, RIKB 10 1210, var fremur dræmur í fyrsta útboði þess flokks í gær. Alls bárust tilboð í þann flokk að fjárhæð tæplega 20 milljarða króna og var tilboðum tekið fyrir 11,5 milljarða króna að nafnvirði. Ávöxtunarkrafa í útboðinu var 14,25%.

Í Morgunkorni kemur fram að fjárfestar hafa nú tryggt sér u.þ.b. 27 milljarða króna af nýjum ríkisbréfum í tveimur síðustu útboðum.

Uppgjörsdagur vegna þeirra er á morgun, líkt og gjalddagi RIKB 08 1212, en mismuninn þarf ríkissjóður að greiða fjárfestum.

Á móti fær ríkissjóður raunar væntanlega greiðslur vegna þess að tæpan helming heildarstærðar flokksins lánaði hann aðalmiðlurum, en hluti þeirra hefur raunar ekki burði til að endurgreiða þau lán.

„Við teljum að talsverður meirihluti eigenda RIKB 08 1212 sé erlendur, og talsverðar líkur á að þessir fjárfestar kjósi að leysa til sín vaxtatekjurnar í sinni heimamynt,“ segir í Morgunkorni Glitnis í morgun.