FÍB og SAF, Samtök ferðaþjónustunnar, hafa skorað á yfirvöld að lækka álögur á eldsneyti. Um helmingur af eldsneytisverði er opinber gjöld, þ.e. bensíngjald, olíugjald, vörugjald og virðisaukaskattur.

Vörugjaldið er 9,28 kr. og bensíngjaldið 32,95 kr. á hvern lítra. Tekjur ríkissjóðs á liðnum árum hafa verið yfir 50 milljarðar kr. á ári af bílum og umferð.

„Við höfum lagt fram tillögur um að vörugjaldið verði lagt af og olíugjaldið lækkað með sambærilegum hætti,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB. Hann segir að tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti af eldsneyti á einu ári, miðað við sömu eldsneytissölu, séu 2,7 milljörðum kr. hærri nú en miðað við eldsneytisverð fyrir einu ári.

Meðalálagning olíufélaganna af hverjum lítra með þjónustu og flutningskostnaði segir Runólfur vera um 30 kr. á hvern lítra.