Ríkissjóður hefur leyst til sín skuldabréf, sem útgefinn voru í evrum, að andvirði um 190 milljóna evra. Kaupin fóru fram í útboði sem hófst 16. júní síðastliðinn og lauk í dag. Skuldabréfaflokkarnir sem um ræðir eru tveir og falla á gjalddaga árin 2011 og 2012. Í flokki bréfanna sem falla á gjalddaga 2011 var kaupverð 97 cent fyrir evru nafnverðs og 96,75 cent fyrir evru nafnverðs í flokki bréfanna sem falla á gjalddaga 2012.

Í 2011-flokknum leysti ríkissjóður til sín skuldabréf að andirði um 160 milljóna evra af höfuðstóli og um 32 milljóna evra í 2012-flokknum. Í upphafi útboðsins þann 16. júní kom fram að ríkissjóður var tilbúinn að kaupa þessi bréf fyrir allt að 300 milljónir evra en áskildi sér þó rétt til að hækka eða lækka fjárhæðina að vild. Niðurstaðan var kaup fyrir rúmar 192 milljónir evra, jafngildi um 30 milljarða króna.