Stjórn Hitaveitu Suðurnesja hefur ákveðið að falla frá forkaupsrétti vegna sölu á hlutabréfum Nýsköpunarsjóðs í VistOrku hf.

Forkaupsréttur HS hf. nær til upphæðar að nafn- og söluverði kr. 7.850.821. Ríkissjóður og Orkuveita Reykjavíkur hafa aftur á móti ákveðið að nýta forkaupsrétt sinn og eru nú langstærstu hluthafar VistOrku með um 30% hlut hvor aðili. Orkufyrirtækið REI mun hafa haft hug á að kaupa bréf en þar sem OR og ríkissjóður nýttu forkaupsrétt sinn, varð ekki af því.

VistOrka er stærsti hluthafi Íslenskrar NýOrku sem hefur ákveðið að halda áfram að efla vetnisrannsóknir sínar á Íslandi en rannsóknirnar felast í því að koma á grunnaðstöðu til að prófa og reka vetnisbíla á Íslandi. Að sögn Jóns Björns Skúlasonar, framkvæmdastjóra NýOrku, felst engin stefnubreyting í þessum breytingum á eignarhaldi og verkefni ársins hafa verið samþykkt af stjórn félagsins.

Þau íslensku fyrirtæki sem standa að VistOrku og eiga meirihluta í Íslenskri NýOrku eru eftirfarandi: Orkuveita Reykjavíkur, Landsvirkjun, Háskóli Íslands,

Iðntæknistofnun, Hitaveita Suðurnesja, Aflvaki og iðnaðarráðuneytið. Erlendir eignaraðilar eru: Daimler, Hydro og Shell Hydrogen.