Ríkissjóður var rekinn með 6,1 milljarða kr. halla á árinu 2003 miðað við 8,1 ma.kr. halla árið 2002. Þetta kemur fram í í skýrslu Ríkisendurskoðunar Endurskoðun ríkisreiknings 2003. Aukinni fjárþörf var mætt með innkomnu fé frá sölu eigna og afborgunum veittra lána ríkisins umfram ný lán. Helstu breytingar á efnahagsreikningi ríkisreiknings voru þær að eignir minnkuðu um 18,4 ma.kr. og skuldir um 5,8 ma.kr. Eiginfjárstaða ríkissjóðs versnaði um 12,6 ma.kr. á árinu 2003 samanborið við 2,8 ma.kr. bata á árinu 2002.

Í skýrslunni ítrekar Ríkisendurskoðun fyrri álit sín að Alþingi samþykki breytingar á fjárheimildum aðila í A-hluta ríkisreiknings áður en þær koma til framkvæmda. Að mati Ríkisendurskoðunar veikir það framkvæmd fjárlaga þegar tilflutningur á fjárheimildum milli uppgjörstímabila er jafn mikill og raun ber vitni. Þetta mat stofnunarinnar á bæði við um þá aðila sem hafa eytt umfram gjaldaheimild og hina sem eiga ónotaða fjárheimild til margra ára. Brýnt er að Alþingi taki þetta mál til skoðunar.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar Endurskoðun ríkisreiknings 2003 er gerð grein fyrir afkomu og fjárhagsstöðu ríkissjóðs á árinu 2003 og endurskoðun á efnahag ríkisins, ríkissjóðstekjum, ráðuneytum, stofnunum og öðrum fjárlagaliðum. Auk þess er fjallað um fjárheimildir ríkissjóðs og fjárhagsstöðu einstakra aðila gagnvart þeim í árslok 2003.

Það markmið Ríkisendurskoðunar hefur að mestu leyti tekist annað árið í röð að gefa út endurskoðaða ársreikninga fyrir allar stofnanir í A-hluta ríkisreiknings, auk stofnana og fyrirtækja í B-, C-, D- og E-hluta hans.