Ríkisskattstjóri hefur afturkallað bindandi álit sitt um skattlagningu eftirgefinna skulda þrotabúa sem hann gaf út í síðustu viku. Þetta kemur fram á vef embættisins .

Viðskiptablaðið fjallaði um álitið en þar komst skattstjóri að þeirri niðurstöðu að mismunur samþykktra krafna í þrotabú og útgreiðslu til kröfuhafa, þ.e. í raun munur eigna og skulda, skyldi teljast sem eftirgjöf skuldar í skattalegu tilliti við skiptalok. Munurinn myndi því teljast sem tekjur hjá þrotabúinu og bera tekjuskatt.

Samkvæmt þessu hefði þrotabú föllnu bankanna mögulega þurft að greiða íslenska ríkinu samtals allt að 1.868 milljarða króna í tekjuskatt.

Ástæðuna fyrir afturkölluninni segir Ríkisskattstjóri vera að komið hafi í ljós að undirbúningi álitsins hafi verið áfátt þar sem ekki væri nægjanlega glöggur munur gerður á eftirgefnum skuldum rekstraraðila og ógreiddum kröfum við lok gjaldþrotaskipta.

Ríkisskattstjóri mun gefa út nýtt álit innan fárra daga.