„Niðurstaðan er mjög afdráttarlaus og hefur fordæmisgildi,“ segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri um dóm Hæstaréttar í máli Toyota á Íslandi gegn íslenska ríkinu. Í málinu felldi Hæstiréttur þann dóm að fyrirtækjum sé óheimilt að draga vaxtakostnað frá skatti við öfuga samruna. Nokkur mál af þessum toga hafa beðið afgreiðslu hjá yfirskattanefnd vegna málsins sem dómur hefur nú fallið í.

Öfugur samruni er í grófum dráttum það þegar eitt félag tekur lán vegna kaupa á öðru félagi. Kaupandinn sameinast síðan hinu keypta félagi, sem ber kostnað af láni kaupandans.

Skúli Eggert segir orðalagið í dómi Hæstaréttar óvenju skýrt og afgerandi, dóminn skipaður fimm mönnum og hafi enginn skilað sératkvæði. Í framhaldi af dóminum mun ríkisskattstjóri senda út endurálagningu til þeirra fyrirtækja sem hafa beðið dóms Hæstaréttar ásamt gjalddögum.

Skúli Eggert gat ekki sagt til um hversu mörg málin eru sem beðið hafi niðurstöðu Hæstaréttar og megi búast við að fá á sig endurálagningu. Hann gat ekki sagt til um það hversu mörg fyrirtækin eru og um hvaða fjárhæðir er að ræða.

„Þetta eru ekki mjög háar fjárhæðir. En þær kunna að vera það í einhverjum tilvikum.“

Í máli Toyota á Íslandi gegn íslenska ríkinu hljóðaði upphæðin upp á um 94 milljónir króna. Íslenska ríkið var sýknað af endurgreiðslukröfu bílaumboðsins.