Bandarísk ríkisskuldabréf hækkuðu mikið í verði í liðinni viku. Ávöxtunarkrafa 10 ára bréfa hefur ekki verið jafnlág síðan í febrúar á þessu ári, en með hraðlækkandi hlutabréfamarkaði leita fjárfestar nú skjóls í öruggi skuldabréfa. Bloomberg greinir frá þessu.

Ávöxtunarkrafa stuttra flokka, sem er jafnan viðkvæmari fyrir ríkjandi peningastefnu en lengri flokkar, hefur ekki verið jafnlág í þrjár vikur. Krafan minnkaði um 27 puntka í vikunni niður í 2,63%. Á tímabili fór hún niður í 2,60%, sem er hin lægsta síðan 9.júní síðastliðinn.

Eftirspurn fjárfesta eftir stuttum flokkum hjá fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur ekki verið jafnmikil í átta mánuði. Fyrir stuttu voru boðnir út 20 milljarðar í formi fimm ára bréfa, en tilboð bárust fyrir tæplega 50 milljarða dollara.