Ríkisskuldabréf hafa hrunið í verði það sem af er morgni í miklum viðskiptum. Ávöxtunarkrafa langra ríkisskuldabréfa hefur hækkað um 30-40 punkta og er nú í kringum 6,4 prósent. Þegar þetta er skrifað hefur krafa RIKB 19 flokksins hækkað mest, eða um 39 punkta.

Ávöxtunarkrafa verðtryggðra skuldabréfa hefur einnig hækkað. Krafa RIKS 21 flokksins hefur hækkað um 7 punkta í 1,4 milljarða króna viðskiptum. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá hefur gengi hlutabréfa lækkað snarlega í viðskiptum dagsins og herma heimildir blaðsins að lækkanirnar skýrist helst af hinu nýja stjórntæki Seðlabankans sem hann getur notað til að tempra innstreymi fjármagns til landsins.

Gengi krónunnar hefur ekki mikið breyst það sem af er morgni. Þó hefur hún styrkst um tæpt prósentustig gagnvart breska pundinu, en það er má að öllum líkindum rekja til áhyggna af auknum líkum á útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Krónan hefur veikst um 0,14% gagnvart evru það sem af er degi.