Bandarísk stjórnvöld – sem og stjórnvöld í öðrum helstu hagkerfum heims – munu þurfa að dæla ríkisskuldabréfum sínum út á fjármálamarkaði í feykilega miklum mæli á næstu árum til þess að fjármagna hallarekstur og efnahagsaðgerðir vegna fjármálakreppunnar.

Enn sem komið er þá virðist vera mikil eftirspurn eftir þessum skuldabréfum. Vextir á bandarískum ríkisskuldabréfum til tíu ára eru nú aðeins um 3,20% en fasteignalán og vextir á skuldabréfum fyrirtækja eru í miklum mæli tengd við ávöxtunarkröfuna á þessum lánaflokki.

Þetta endurspeglar að einhverju leyti minni áhættufælni fjárfesta og vaxandi trú á því að verstu áhrif fjármálakreppunnar séu nú loksins komin fram. Sem kunnugt er hafa hlutabréfavísitölur vestanhafs farið hækkandi að undanförnu.

Jafnframt er þetta til marks um að fjárfestar telji að eftirspurn eftir ríkisskuldabréfum muni haldast í hendur við framboð og að markaðsaðgerðir bandaríska seðlabankans, sem er meðal annars ætlað að halda ávöxtunarkröfunni niðri, muni þrátt fyrir allt ekki leiða til mikillar verðbólgu.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í erlendri fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .