*

laugardagur, 29. febrúar 2020
Innlent 9. nóvember 2019 14:27

Ríkisskuldir hvergi lækkað hraðar

Moody‘s hækkar lánshæfi Íslands en vill að stjórnvöld skoði einkavæðingu til að greiða frekar niður skuldir.

Ritstjórn
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Moody‘s hækkaði í gær lánshæfismat íslenska ríkisins úr A3 í A2. Í samantekt Moody‘s kemur fram að skuldir íslenska ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu hafi lækkað um 75 prósentustig frá árinu 2011 og munu standa í 36% af landsframleiðslu í árslok. Það sé mesta skuldalækkun þeirra ríkja sem Moody‘s meti frá heimskreppunni 2008. Þar skipti bætt afkoma ríkisins og niðurgreiðsla skulda með stöðugleikaframlögum föllnu bankanna miklu máli.

Moody‘s bendir á að ekki sé von á sambærilegum hvalrekum og fengust úr þrotabúum föllnu bankanna. Einkavæðing fyrirtækja í ríkiseigu gæti hins vegar nýst til að greiða niður skuldir og þannig styrkt efnahagsreikning ríkisins enn frekar.

Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs gæti hækkað frekar ef ytri staða þjóðarbúsins batnar markvert og fjárhagslegt svigrúm til að mæta áföllum eykst, t.d. vegna viðvarandi verulegs afgangs á frumjöfnuði, sölu fyrirtækja í opinberri eigu eða verulegri lækkun ríkisábyrgða.

Snörp hækkun skulda hins opinbera, verulegur samdráttur eða önnur efnahagsáföll hefðu neikvæð áhrif á lánshæfismat.

Hér má sjá nánir upplýsingar um lánshæfisflokka Moody‘s.