Ríkisstarfsmenn eru með hæstu meðallaunin ef borið er saman við starfsmenn sveitarfélaga annars vegar og starfsmenn á almennum launamarkaði hins vegar.

Jafnframt eru flestir þeirra með laun yfir 800 þúsund krónum á mánuði og fæstir með laun undir 600 þúsund krónum á mánuði. Þetta kemur fram í tölum fyrir árið 2015 frá Hagstofunni.

Skattborgarar ríkisins borga starfsmönnum sínum hæstu launin

Um 85% starfsmanna sveitarfélaga voru með laun undir 600 þúsund krónum á mánuði og einungis 5% þeirra voru með heildarlaun yfir 800 þúsund krónum. Meðaltal launa starfsmanna sveitarfélaga var 490 þúsund krónur á mánuði.

Af starfsmönnum á almennum launamarkaði voru 60% með laun undir 600 þúsund krónum á mánuði en 19% með laun yfir 800 þúsund krónum. Meðaltalið hjá þessum hópi var 637 þúsund krónur á mánuði.

Hins vegar voru langfæstir starfsmanna ríkisins, eða 45% með laun undir 600 þúsund krónum og flestir þeirra með laun yfir 800 þúsund krónum, eða 23%. Meðaltal launa starfsmanna ríkisins var jafnframt hæst eða 681 þúsund krónur á mánuði.