Heildarlaun starfsmanna ríkisins voru að meðaltali 732 þúsund krónur á mánuði á síðasta ári eða 65 þúsund krónum hærri en meðallaun fullvinnandi launamanna á Íslandi. Helmingur allra ríkisstarfsmanna var með hærri mánaðarlaun en sem nemur meðallaunum á Íslandi, en starfsmenn á vegum ríkisins voru að rúmlega 21 þúsund í fyrra. Þá voru þrír af hverjum fjórum ríkisstarfsmönnum með hærri laun en 525 þúsund krónur á mánuði og voru 13% ríkisstarfsmanna með yfir milljón, líkt og á almennum vinnumarkaði.

Hagstofa Íslands birti í vikunni niðurstöður úr launarannsókn sinni fyrir árið 2016. Þær sýna hvernig ríkisstarfsmenn eru að jafnaði með hærri laun en starfsmenn á hinum almenna vinnumarkaði. Almennt hafa hafa laun ríkisstarfsmanna verið 4,5% hærri en á almennum markaði frá árinu 2008.

Í launarannsókn Hagstofunnar kemur fram að heildarlaun fullvinnandi launamanna (brúttólaun án yfirvinnu) hafi verið að meðaltali 667 þúsund krónur á mánuði árið 2016. Miðgildi launa var 583 þúsund krónur, sem þýðir að helmingur launamanna voru með laun undir þeirri upphæð og helmingur yfir.

Í rannsókninni er einnig að finna sundurliðun á heildarlaunum launamanna eftir launþegahópum. Þannig voru heildarlaun starfsmanna á almennum vinnumarkaði 697 þúsund á mánuði í fyrra að meðaltali og miðgildi launa 604 þúsund. Ríkisstarfsmenn voru með 732 þúsund í meðallaun á mánuði og var miðgildi launa 668 þúsund. Launafólk sveitarfélaga var þó með talsvert lægri laun, eða 528 þúsund á mánuði að meðaltali og 504 þúsund í miðgildi launa. Miðað við aðra launahópa voru ríkisstarfsmenn hlutfallslega fæstir þeirra sem voru með laun undir 600 þúsund krónum. Þannig var hlutfallið 40% hjá ríkisstarfsmönnum, en 50% hjá starfsmönnum á almennum vinnumarkaði og 80% hjá launafólki sveitarfélaga.

Munurinn á milli meðaltals og miðgildis launa skýrist af dreifingu launa, þar sem hæstu laun hækka meðaltalið. Meðal ríkisstarfsmanna eru það laun forseta Íslands, hæstaréttardómara, ráðherra, þingmanna, ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra, aðstoðarmanna ráðherra, lækna og forstjóra ríkisfyrirtækja sem hækka meðallaun ríkisstarfsmanna umfram miðgildið, en miðgildið gefur réttari mynd af hinum „dæmigerðu“ launum tiltekins launþegahóps. Á þeim mælikvarða voru laun ríkisstarfsmanna 10,6% hærri en á almennum vinnumarkaði á síðasta ári og tæplega 33% hærri en laun starfsmanna sveitarfélaga. Hlutföllin hafa verið að jafnaði svipuð undanfarin átta ár.

Þeir tekjuhæstu hafa hækkað mest

Athygli vekur að undanfarin tvö ár hafa lægstu launin á hinum almenna vinnumarkaði hækkað hlutfallslega meira en hæstu launin, á meðan þessu hefur verið öfugt farið á opinberum vinnumarkaði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .