Laun ríkisstarfsmanna í stéttarfélögum innan Alþýðusambands Íslands (ASÍ) hafa hækkað mest í launum á tímabilinu frá nóvember 2006 til september 2014. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu heildarsamtaka á vinnumarkaði sem fjallar um launaþróun undanfarinna átta ára og efnahagsforsendur kjarasamninga 2015.

Innan heildarsamtakanna eru ASÍ, BHM, BSRB og KÍ launþegamegin, en vinnuveitendamegin eru það SA, Samband íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðuneytið.

Fram kemur í skýrslunni að á eftir ríkisstarfsmönnum innan ASÍ hafi framhalds- og grunnskólakennarar hækkað mest í launum, en starfsmenn í aðildarfélögum BSRB hjá sveitarfélögum hækkuðu minnst í launum. Einnig kemur fram að í heildarsamtökunum og samningssviðum hafi laun kvenna hækkað meira en karla á tímabilinu.

Gert ráð fyrir 3,2% hagvexti á ári

Í skýrslunni eru einnig teknar saman tíu spár um efnahagsþróun áranna 2015 og 2016. Meðalhagvöxtur í þessum spám er 3,2% á ári, verðbólga 3% og atvinnuleysi 3,5%. Meðalvöxtur fjárfestinga er 13,2% á ári, þar af fjárfestinga atvinnuveganna 16,3%.

Hins vegar kemur fram að ýmsar mikilvægar forsendur séu mikilli óvissu undirorpnar. Þannig ríki mikil óvissa um framvindu efnahagsmála í helstu viðskiptalöndum. Hér á landi felist mesta óvissan í niðurstöðum komandi kjarasamninga, losun fjármagnshafta og uppgjöri þrotabúa föllnu bankanna.

Lesa má skýrsluna í heild sinni hér .