*

miðvikudagur, 28. október 2020
Innlent 16. ágúst 2019 11:46

Ríkisstarfsmenn sólgnir í Múlakaffi

Múlakaffi var vinsælasti veitingastaður meðal ríkisstarfsmanna í júní. Fangelsismálastofnun stórtækasti áfengiskaupandinn.

Ritstjórn
Bekkurinn er oft þéttsetinn hjá Múlakaffi á matmálstímum.
Haraldur Guðjónsson

Múlakaffi var vinsælasti veitingastaður landsins meðal ríkisstarfsmanna í júní, en samkvæmt tölum úr Opnum reikningum ríkisins greiddu stofnanir á vegum hins opinbera 3,4 milljónir króna fyrir veitingar á veitingastaðnum í júní. Fréttablaðið greinir frá þessu.

Hið opinbera greiddi samtals yfir 37 milljónir króna fyrir veitingar í júní, en þess ber þó að geta að tölurnar voru enn að uppfærast þegar Fréttablaðið tók saman tölurnar.

Næst á eftir Múlakaffi komu KH veitingar, rekstraraðili Kolabrautarinnar og Hörpudisks í Hörpunni, með 2,4 milljónir. Nauthóll var svo þriðji vinsælasti veitingastaðurinn með 1,4 milljónir. Þá segir Fréttablaðið að Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Landspítalinn hafi eytt mestu, en að Landhelgisgæslan hafi oftast farið á Nauthól. Gæslan er með aðsetur nálægt veitingastaðnum og er dugleg að sækja nágranna sína í heim.

Múlakaffi hefur sterkar tengingar inn í Nauthól og KH veitingar. Nauthóll er alfarið í eigu Múlakaffis, auk þess sem Múlakaffi á 75% hlut í KH veitingum. Því verslaði ríkið veitingar fyrir 7,2 milljónir króna af Múlakaffi og stöðum í þeirra eigu.

Domino's og KFC vinsælasti skyndibitinn

Rétt eins og hjá mörgum öðrum landsmönnum þá nýtur Domino's vinsælda hjá hinu opinbera sem verslaði flatbökur fyrir 409 þúsund krónur í júní. Stærstu einstökuflatbökukaupin voru 90 þúsund króna kaup Veðurstofunnar. KFC nýtur sömuleiðis vinsælda, en Lögreglustjórinn á Suðurnesjum keypti KFC fyrir tæplega 130 þúsund krónur í júnímánuði.

Fangelsismálastofnun langstærsti áfengiskaupandinn

Ríkið verslaði við ÁTVR fyrir 5,2 milljónir króna í júní. Kaup Fangelsismálastofnunar á áfengi fyrir 3,8 milljónir króna vógu þar langþyngst. Næst stærstu kaupandinn var svo Utanríkisráðuneytið með kaup upp á rúmlega 350 þúsund krónur. 

Loks tekur Fréttablaðið það fram að þó svo að reikningar 132 stofnana séu nú aðgengilegar á vefnum, vanti stóran hluta hins opinbera.

„Í svari Fjársýslunnar segir að einungis sé búið að innleiða A-hluta stofnanir sem nota bókhaldskerfi ríkisins í kerfið. Nú sé unnið að því að innleiða aðrar stofnanir sem falla undir A-hluta. „Óvíst hvenær verður farið í aðra ríkishluta en A,“ segir í svarinu. Þetta þýðir að ekki eru birtir reikningar opinberra fyrirtækja á borð við Isavia, ÁTVR, LÍN og Seðlabankann,“ segir í frétt blaðsins.

Stikkorð: áfengi veitingar Múlakaffi ríkið