Ríkisstarfsmönnum fjölgaði um 483 frá 1. September 2010 til 1. September 2011, að því er kemur fram í svari iðnaðarráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar, Alþingismanns, um þróun opinberra starfa á landsbyggðinni. Er þetta hlutfallsleg fjölgun um 2,8%.

Árið 2010 voru þeir samtals 17.031 en ári síðar voru þeir 17.514. Eins og við er að búast fjölgaði ríkisstarfsmönnum mest á höfuðborgarsvæðinu, eða um 265. Fóru þeir úr 12.065 í 12.330. Hlutfallslega var fjölgunin hins vegar mest á Suðurnesjum og Suðurlandi, þar sem ríkisstarfsmönnum fjölgaði um 7,4%. Á Suðurnesjum fóru þeir úr 529 í 568 og á Suðurlandi voru þeir 816 talsins árið 2010 en 876 ári síðar.

Á Austurlandi fjölgaði ríkisstarfsmönnum um 5,9% og voru 539 árið 2011 og á Norðurlandi Vestra fjölgaði þeim um 5,4% í 450. Minnst var fjölgunin á Vesturlandi, þar sem ríkisstarfsmönnum fjölgaði úr 707 í 718, eða um 1,6%.