Ráðamenn á Grikklandi og hópur alþjóðlegra kröfuhafa hafa náð sáttum um aðgerðir til að greiða fyrir útborgun á næsta skammti af björgunarláni sem landið þarf á að halda til að standa við skuldbindingar sínar og halda ríkisrekstrinum gangandi. Lánið hljóðar upp á 6 milljarða evra, jafnvirði 430 milljarða íslenskra króna. Líklegt þykir að það sem stóð út við síðustu lánafyrirgreiðslu gangi sömuleiðis í gegn með samkomulaginu nú.

AP-fréttastofan segir að viðræður lánardrottna landsins og stjórnvalda á Grikklandi hafi gengið fremur treglega frá því vilyrði fékkst upphaflega fyrir lánum árið 2010. Stjórnvöld hafa þegar fengið 270 milljarða evra að láni þrátt fyrir að fulltrúar kröfuhafa hafi verið allt annað en sáttir við það hvernig Grikkir hafa staðið sig.

Samkomulagið nú felur í sér að opinberum starfsmönnum verði fækkað um 15.000 fram til loka árs 2014 og æviráðningar látnar falla niður. Þar verður 4.000 sagt upp á þessu ári. Fréttastofan segir að framan af hafi kröfuhafar verið mótfallnir því að ráðið yrði í þær stöður sem losna. Í samkomulaginu sem búið er að landa nú kemur fram að ungt fólk verði ráðið í stað þeirra sem verður sagt upp. Atvinnuleysi á Grikklandi mælist nú 27% og er stór hluti ungs fólks án atvinnu.