Fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur ráðið Morgan Stanley bankann sér til ráðgjafar um hvort fjárfestingalánasjóðirnir Fannie Mae og Freddie Mac hafi nægt fjármagn til rekstrar. Stjórnvöld í Bandaríkjunum reyna nú að meta hvernig nota skuli nýjar heimildir til að koma sjóðunum til hjálpar á sem árangursríkastan hátt.

Fjármálaráðuneytið segist engar áætlanir hafa uppi um að styðja Fannie Mae og Freddie Mac á næstunni, en vill hafa á hreinu með hvaða hætti stutt væri við sjóðina ef til þess kæmi.

Eins og fjallað hefur verið um var lagafrumvarp um heimildir til handa fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna til að verða Fannie Mae og Freddie Mac úti um fjármagn og jafn vel kaupa sjóðina samþykkt í síðustu viku.

Óvenjulegt þykir að einkafyrirtæki sé ráðið til verks sem þessa. Fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna segir stjórnvöldum skylt að meta hvernig best sé að beita nýfengnu valdi til að efla Fannie og Freddie.

Morgan Stanley fær aðeins greiddan kostnað við vinnuna en á ekki að fá greiddan neinn hagnað fyrir verkið, samkvæmt frétt Reuters.

Hámarksgreiðsla til bankans fyrir þjónustuna nemur 95.000 Bandaríkjadölum (um 7,5 milljónir íslenskra króna).