Fjármálaráðuneyti Bretlands hefur gefið það út að ríkisstjórnin muni selja 12% hlut sinn í Lloyds bankanum. BBC greinir frá.

Sölunni verður sérstaklega beint að einkafjárfestum en fjárfestum sem skrá sig fyrir minna heldur en 1.000 hlutum verður veittur forgangur og almenningi verður boðið að fá hlutabréf í bankanum á 5% afslætti.

Auk þess munu þeir sem eiga hlutina í að minnsta kosti 12 mánuði fá eitt hlutabréf í kaupbæti fyrir hverja tíu hluti sem þeir eiga. Hámark kaupbætisins verður 200 pund fyrir hvern fjárfesti.

Ríkisstjórn Bretlands bjargaði Lloyds frá gjaldþroti árið 2008 með að veita þeim 20,5 milljarða punda, eða um 3.933 milljarða íslenskra króna, og fyrir það fékk ríkisstjórnin 43% hlut í bankanum.

Hlutabréf í Lloyds hækkuðu um 1,4% við tilkynninguna.