Breski bílaframleiðandinn Jagúar Land Rover er sagður eiga í leynilegum viðræðum við ríkisstjórn Bretlands um lán sem hljóðar upp á einn milljarð sterlingspunda.

Reuters fréttaveitan greinir frá þessu á heimasíðu sinni.

Erfiðleikar blasa við í bílaiðnaði og hafa framleiðendur alls staðar í heiminum þurft að þola afleiðingar minnkandi eftirspurnar. Jagúar og Land Rover eru meðal þekktustu vörumerkja Bretlands. Indverski bílaframleiðandinn Tata keypti vörumerkin af Ford fyrir um níu mánuðum síðan og sameinaði rekstur verksmiðjanna undir nafninu Jagúar Land Rover. Í ljós þess hve stutt er síðan Jagúar og Land Rover voru seld kemur lánabeiðnin að einhverju leyti á óvart segir í frétt Reuters en hún endurspegli þann vanda sem bílaframleiðendur standa frammi fyrir.

Tata keypti Jagúar og Land Rover á 2,3 milljarða bandaríkjadali og fjármagnaði kaupin m.a. með þriggja milljarða bandaríkjadala láni. Síðan kaupin voru gerð hefur sala á bílunum snarminnkað. Tata mun því hafa leitað til breskra yfirvald um lán næstu 24 mánuðina til þess að takmarka hallarekstur.

Þó svo vart megi telja Jaguar Land Rover breskt fyrirtæki lengur þá eiga bílarnir djúpar rætur í bresku þjóðarsálinni. Um 15.000 manns vinna við framleiðslu bílanna í Bretlandi. Á síðasta ári voru framleiddir 230.000 Land Rover bifreiðar í verksmiðjum í vesturhluta Englands og sömuleiðis voru framleiddir um 54.000 Jagúar bílar.