Ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hyggst fá óháða aðila til að greina fjármálakerfið og skoða framtíðarskipulag þess.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, er talað um að samin verði hvítbók um endurskipulagningu fjármálakerfisins að því er Morgunblaðið greinir frá.

Verða óháðir, helst erlendir, fengnir til að vinna greininginu á fjármálakerfinu og leggja fram tillögur um framtíðarskipulag þess. Er vilji fyrir því að tillögurnar verði komnar á borð ríkisstjórnarinnar í vor, en stefnan verður sett á að draga verulega úr eignarhaldi ríkisins í viðskiptabönkunum.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun er jafnframt stefnt að því gera ýmsar breytingar á skattkerfinu, til að mynda hækka fjármagnstekjuskatt upp í 22%, en með á móti kemur möguleg lækkun skattstofnsins.

Annars vegar með því að raunávöxtun yrði skattlögð en ekki nafnávöxtun en hins vegar með því að heimilt verði að draga fjármagnskostnað frá skattstofninum í meira mæli að því er Fréttablaðið greinir frá. Hagnaður af væntanlegri sölu bankanna yrði nýttur til niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs, en einnig er áætlað að lækka eigið fé Íslandsbanka og Landsbankans og nýta fjármagnið sem losnar í uppbyggingu innviða.

Líkt og Viðskiptablaðið hefur þegar greint frá er þegar gert ráð fyrir 140 milljörðum króna í arðgreiðslur úr bönkunum í fjármálaáætlun til ársins 2022 en Fjársýsla ríkisins segir upphæðina geta numið um 120 milljörðum.

Eins og fjallað hefur verið um í Viðskiptablaðinu telur sérfræðingur hjá SFF að verðmæti bankanna hafi þegar rýrnað um 280 milljarða vegna þess sem hann kallar séríslenska endurskipulagningu fjármálakerfisins. Vísar hann þar til áhrifa af bankaskattinum, fjársýsluskattinum og sérstaks fjársýsluskatts, en einnig nefnir hann nýjar ESB reglugerðir sem munu draga úr tekjum bankanna.