Ríkisstjórn Möltu stóð af sér vantrausttillögu í gærkvöld. Tillagan var lögð fram af stjórnarandstöðunni í kjölfarið af upplýsingum sem tengdu stjórnarliða við Panamaskjölin svokölluðu. Einn ráðherra og starfsmaður forsætisráðuneytisins eru nefndir í skjölunum. Um málið er fjallað á ruv.is í dag.

Atkvæðagreiðslan tók langan tíma og lauk með því að 38 þingmenn felldu tillöguna, en 31 kaus með henni.

Joseph Muscat, forsætisráðherra Möltu, sagði að atkvæðagreiðslu lokinni að ríkisstjórnin stæði traust og umboð hennar væri ótvírætt.  Leiðtogi stjórnarandstöðunnar var hinsvegar á öndverðum meiði og sagði stjórnina spillta og hún væri í kreppu.

Konrad Mizzi, orkumálaráðherra Möltu, og Keith Schembri, starfsmannastjóri forsætisráðuneytisins og fjármálamaður, voru nefndir í skjölunum sem lekið var úr panömsku lögfræðistofunni Mossack Fonseca. Miðað við upplýsingar þaðan voru stofnaðir bankareikningar fyrir þá í Karíbahafinu, Panama, Dubai og Miami.

Báðir segjast þeir ekkert hafa gert rangt og þvertaka fyrir að þurfa að segja af sér vegna þessa.