Viðskiptaráð Íslands (VÍ) gerði úttekt á efnahagslegum áhrifum samþykktra lagafrumvarpa fráfarandi ríkisstjórnar á dögunum. Almennt telur VÍ að efnahagslífinu hafi vaxið fiskur um hrygg með lagabreytingum ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu 2013-2016.

Farið var yfir öll samþykkt lagafrumvörp ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu og voru efnahagsleg áhrif þeirra metin. Litið var til þess hvort stjórnvöld hefðu stuðlað að hagstæðu rekstrarumhverfi fyrirtækja með setningu laga, en atvinnurekstur er almennt talinn undirstaða samfélagslegrar velferðar.

Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri VÍ, segir úttektina vera huglægt mat að einhverju leyti, en að á sama tíma sé aðferðafræðin á bak við hana umfram skynsamlega ágiskun. „Frumvörpunum var stillt upp á tveimur ásum; annars vegar hversu veigamikið frumvarpið er í fjárhagslegum eða verðmætalegum skilningi og hins vegar hversu mikil neikvæð eða já- kvæð áhrif viðkomandi frumvarp hafði. Síðan var það dregið saman í einkunn á bilinu -10, eða veruleg neikvæð efnahagsleg áhrif, upp í +10, eða veruleg jákvæð efnahagsleg áhrif,“ segir Frosti.

Af þeim 72 lagabreytingum ríkisstjórnarinnar sem VÍ taldi hafa haft teljandi efnahagsleg áhrif höfðu 43 samþykkt lagafrumvörp jákvæð áhrif en 29 neikvæð. Umfang jákvæðra frumvarpa vó þyngra, en heildarumfang áhrifanna kemur út á einkunninni +73.

Að sögn Frosta er ástæða úttektarinnar að gefa mynd af því hvaða áhrif stjórnvöld hafa á efnahagslífið. „Það sést ágætlega á umræðunni, t.d. í aðdraganda kosninga, að menn eiga erfitt með að greina milli áhrifa af aðgerð- um stjórnvalda og efnahagslegra skilyrða hverju sinni. Úttektin á að varpa ljósi á það hvort og að hvaða leyti stjórnvöld geti stært sig af þeirri efnahagslegri velgengni sem hefur átt sér stað og hvað það er sem stjórnvöld leggja í púkkið,“ segir Frosti. Síðan er úttektin gagnleg samantekt á að- gerðum ríkisstjórnarinnar yfir kjörtímabilið, þó svo að listinn sé ekki tæmandi.

Miðað við úttektina hefur frá- farandi ríkisstjórn látið margt gott af sér leiða og að þau frumvörp sem höfðu neikvæð efnahagsleg áhrif hafi verið tiltölulega veigalítil. „En þegar allt kemur til alls er það ekki ríkisstjórn hvers tíma sem hefur ráðandi áhrif á efnahagslega frammistöðu heldur er það staðan á mörkuðum og frammistaða fyrirtækja og einkaaðila,“ segir Frosti.

Bestu og verstu málin

Frumvörp ríkisstjórnarinnar voru flokkuð í átta málaflokka og voru einkunnirnar innan hvers flokks lagðar saman. Lagabreytingar tengdar fjármagnshöftum, sköttum og gjöldum, opinberri stjórnsýslu og fjármálum hins opinbera stuðluðu að jákvæðum efnahagslegum áhrifum, á meðan húsnæðismál, regluverk, landbúnaðarmál og velferðarmál höfðu neikvæð áhrif.

VÍ áætlar að fjögur frumvörp í haftamálum hafi stuðlað hvað mest að jákvæðum efnahagslegum áhrif ríkisstjórnarinnar. Nauðasamningar við kröfuhafa föllnu bankanna voru staðfestir, aflandskrónufjármagn var losað eða girt af, lífeyrissjóðir fengu heimildir til erlendrar fjárfestingar og fengu einstaklingar og fyrirtæki einnig rýmri heimildir í þeim efnum. Afnám almennra vörugjalda og tolla og tilfærsla ólíkra þrepa virðisaukaskatts nær hvort öðru hafa skilað ábata til neytenda og verslunar með því að lækka verð í mörgum vöruflokkum og auka skilvirkni í skattkerfinu.

Ný lög um opinber fjármál tryggja vandaðri undirbúning áætlana og lagasetningar sem varða rekstur opinberra aðila og öflun og meðferð opinberra fjármuna. Rannsóknar- og þróunarstarfsemi á Íslandi hefur orðið samkeppnishæfari vegna hærra endurgreiðsluþaks, innleiðingar skattalegra hvata og umbóta í rekstrarumhverfi ný- sköpunarfyrirtækja, en samkeppnishæfni hugvitsdrifinna fyrirtækja í alþjóðlegri starfsemi hefur batnað fyrir vikið. Loks var opinbert stofnanaumhverfi og opinber þjónusta endurbætt á kjörtímabilinu, t.d. með fækkun á embættum og tilurð millidómstigs.

Hvað neikvæðar breytingar varðar vega fjögur frumvörp í húsnæðismálum (Leiðréttingin, hækkun húsaleigubóta, almennar íbúðir og nýtt stuðningskerfi vegna kaupa á fyrstu fasteign) þyngst, en þau fela öll í sér afturför að mati VÍ.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .