Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum í morgun frumvarp fjármálaráðherra um stofnun hlutafélags í eigu ríkisins til að stuðla að endurskipulagningu þjóðhagslegra mikilvægra atvinnufyrirtækja.

Hlutafélagið verður starfrækt tímabundið og stofnun þess er í samræmi við þær tillögur sem endurreisnarnefnd bankakerfisins hefur áður gert grein fyrir.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Þar kemur fram að ríkisstjórn samþykkti jafnframt frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á lögum um tekjuskatt og vaxtabætur sem miðar að því að hækka greiðslur vaxtabóta vegna skuldastöðu heimilanna.

Fjármálaráðherra kynnti jafnframt hugmyndir um frekari ráðstafanir til greiðsluaðlögunar fyrir einstaklinga og fyrirtæki.