Stjórnvöld í Taívan hyggjast borga þegnum landsins fyrir að auka neyslu og freista þar með að auka hagvöxt í landinu.

Ríkisstjórnin hyggst láta íbúa fá úttektarheimild í verslunum og veitingastöðum að andvirði 14 þúsund króna og vonast þar með að geta örvað hagvöxt um 0,64% á næsta ári.

Samkvæmt breska ríkisútvarpinu, BBC, þá mun hver einasti íbúi landsins fá úttektarheimildina en 23 milljónir manna búa í Taívan.

Úttektarheimildirnar munu taka í gildi í janúar á næsta ári.

Þeir sem að kjósa að framselja heimildirnar geta dregið andvirði þeirra frá skatti. Haft er eftir fulltrúum stjórnvalda að aðgerðin sé nauðsynleg sökum ástandsins í alþjóðahagkerfinu en það hefur meðal annars gert það að verkum að eftirspurn eftir taívönskum útflutningsvörum hefur dregist mikið saman að undanförnu.

Þessi aðgerð stjórnvalda í Taívan er ekki einsdæmi en sambærilegri aðgerð var hrint í framkvæmd í Japan árið 1999.