Áætlað er að tvenn ríkisstjórnarskipti á árinu hafi kostað ríkissjóð um fimmtíu milljónir króna. Kostnaðurinn fellur til vegna biðlauna og orlofsuppgjörs ráðherra og aðstoðarmanna.

Þetta kemur fram í fjáraukalagafrumvarpi 2009 sem lagt var fram á Alþingi í dag.

Þar kemur fram að með úrskurði kjararáðs í desember 2008, um að ráðherralaun lækkuðu um 14% frá og með 1. janúar 2009, hafi launaútgjöld til ráðherra lækkað um 35 milljónir á árinu frá því sem ella hefði orðið.

Sá sparnaður verður notaður til að mæta kostnaði vegna þeirra ráðherra og aðstoðarmanna sem létu af störfum en auk þess er sótt um 15 milljóna króna fjárheimild til viðbótar til að bæta það sem upp á vantar.

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, með stuðningi Framsóknar, tók við 1. febrúar 2009. Að afloknum þingkosningum tók síðan við ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna 10 maí.