Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra segist vonast til þess að það líði ekki margar vikur þar til niðurstaða fáist í það hvort ráðast eigi í byggingu háskólasjúkrahúss við Hringbraut.

Það sé á vinnsluborði ríkissjóðs og lífeyrissjóða.

„Ríkisstjórnin er áhugasöm um byggingu sjúkrahússins og lífeyrissjóðirnir eru áhugasamir um að setja peninga í verkefnið. Það sjá það allir að þetta er þjóðþrifaverkefni. Það skapar atvinnu. Auk þess verður samruni spítalanna í Reykjavík, Borgarspítalans og Landspítalans, ekki að veruleika fyrr en þessi bygging er komin til sögunnar. Þá munu samlegðaráhrifin fyrst koma fram."

Í Viðskiptablaðinu á síðasta ári kom fram að kostnaður við byggingu sjúkrahússins hefði hækkað upp úr öllu valdi frá því málið var upphaflega kynnt. Þá var miðað við 40 milljarða en viðmælendur blaðsins í fyrra sögðu að sú tala væri komin nálægt 100 milljörðum.

Ingólfur Þórisson er verkefnisstjóri um byggingu sjúkrahússins við Hringbraut. Ekki náðist í hann, hvorki í dag né í gær, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Ítarlegt viðtal er við Ögmund Jónasson um heilbrigðiskerfið og niðurskurðinn framundan í Viðskiptablaðinu í dag.