Úr viðtali Viðskiptablaðsins við Árna Pál Árnason, formann Samfylkingar:

Samfylkingin hefur átt betri daga sem stjórnmálaflokkur. Flokkurinn mælist nú með 12,2% fylgi, sem er lægsta fylgi hans síðan í júlí 1998. Samfylkingin er því nokkurn veginn á pari við Framsóknarflokk annars vegar og Vinstri-græna hins vegar hvað fylgið snertir um þessar mundir.

Árni Páll Árnason, formaður flokksins, er að vonum meðvitaður um stöðu mála. „Við höfum séð fylgið dala á síðasta kjörtímabili og við uppskárum mjög lítið kjörfylgi,“ segir Árni Páll. „Okkur gekk ágætlega að vinna fylgið til baka og vorum komin á gott ról, 17 til 21% fylgi á fyrri hluta síðasta vetrar. Svo tókum við aftur dýfu eftir fylgisaukningu Pírata og landsfundinn í mars,“ bætir hann við.

Gamlir og þreytulegir flokkar

Árni Páll segir að fylgistap Samfylkingarinnar megi að einhverju leyti rekja til svikinna loforða Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. „En það er hins vegar alveg ljóst á fylgistölunum að það sem mestu skiptir og endurspeglast í fylgi allra flokka er óþol með stjórnmálin og ég hef þá kenningu að stóri áhrifavaldurinn í þessu hafi verið loforð ríkisstjórnarflokkanna um þjóðaratkvæði um aðild að Evrópusambandinu sem er svikið í tvígang, fyrst með tilrauninni til að draga aðildarumsókn til baka í febrúar 2014 og svo aftur með bréfinu í febrúar 2015. Í bæði skiptin verða gríðarlegar fylgissveiflur og í bæði skiptin er mikil fylgisaukning hjá þeim flokkum sem menn telja að standi fyrir eitthvað nýtt, fyrst Bjartri framtíð og í seinna skiptið Pírötum. Ég held einfaldlega að vonbrigði fólks endurspeglist í þessum sveiflum,“ segir formaður Samfylkingarinnar.

Árni Páll Árnason er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .