Gagnsæi í rekstri fyrirtækja sem ekki eru skráð á markað verður aukið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ríkisstjórninni en þetta var ákveðið á fundi hennar í morgun. Aðgerðirnar sem kynntar eru meðal annars til að bregðast við umfjöllun um starfsemi Samherja á vesturströnd Afríku.

Í tilkynningunni segir að undirbúningur sé hafinn að vinnslu lagafrumvarps um upplýsingu hlutfallslega stórra fyrirtækja sem geta haft kerfislæg áhrif í efnahagslífi landsins. Til athugunar er að gera ríkari kröfur til þeirra um upplýsingar um rekstur, efnahag og góða stjórnarhætti. Við vinnuna verður höfð hliðsjón af kröfum sem gerðar eru til fyrirtækja skráðar á markað í kauphöllum.

Þessu til viðbótar hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra óskað eftir því að kannað verði hvort gera þurfi enn ríkari kröfur til fyrirtækja sem starfa í sjávarútvegi, þá sérstaklega þegar um er að ræða stórar útgerðir.

„Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun hafa frumkvæði að því að Alþjóðamatvælastofnunin (FAO) vinni úttekt á viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum með aflaheimildir þ. á m. í þróunarlöndum. Á grundvelli úttektarinnar vinni FAO tillögur til úrbóta í samvinnu við aðrar alþjóðlegar stofnanir sem vinna að heilbrigðum viðskiptaháttum, gegn spillingu, mútum og peningaþvætti,“ segir í tilkynningunni.

Þá verður endurskoðun á skilgreiningu á tengdum aðilum í sjávarútvegi líklega lokið fyrir áramót. Nefnd sem var skipuð í mars á að skila tillögum fyrir 1. janúar en hún mun einnig leggja til breytingar á eftirliti með fiskveiðum og vigtun sjávarafla.

Í tilkynningunni kemur fram að utanríkisráðuneytinu og sendiskrifstofur hafi ekki fengið teljandi fyrirspurnir vegna framgöngu Samherja. Viðbragðsáætlun sé hins vegar í vinnslu með tilliti til mögulegs orðsporshnekkis.

„Á ríkisstjórnarfundinum fór forsætisráðherra yfir þau umbótaverkefni sem hafa verið í vinnslu eða eru í mótun í forsætisráðuneytinu um aukið gagnsæi og traust, þ. á m. breytingar á upplýsingalögum, frumvarp til laga um vernd uppljóstrara og fyrirhugað frumvarp forsætisráðherra um varnir gegn hagsmunaárekstrum. Þá fór dómsmálaráðherra yfir löggjöf, alþjóðasamninga og þau atriði sem unnið hefur verið að og varða mútubrot og peningaþvætti. Þá verður hugað sérstaklega að fjármögnun rannsóknar héraðssaksóknara í tengslum við rannsókn embættisins á Samherjamálinu,“ segir í tilkynningunni . Skattrannsóknarstjóri mun einnig fá auknar fjárveitingar vegna málsins.