Hvöt, félag sjálfstæðiskvenna í Reykjavík, telur að ríkisstjórnin, sem vill láta kenna sig við jafnrétti kynjanna, hafi ekki náð að fylgja eftir eigin markmiðum og stefnu í jafnréttismálum.

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Í ályktun stjórnar Hvatar, sem samþykkt var í gær, vegna niðurstöðu úrskurðarnefndar jafnréttismála um að embættisfærslur Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra séu brot á jafnréttislögum segir:

„Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkana segir m.a.: „Því mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að jafna hlutfall kynjanna á öllum sviðum samfélagsins og grípa til sértækra aðgerða sé þess þörf.“ Það blasir við að þessi yfirlýsing hefur verið að engu höfð.“

Ætla ekki að breyta vinnubrögðum

Hvöt telur að þær aðgerðir sem Jóhanna Sigurðardóttir hefur boðað, og miða að bættri stöðu kvenna, þurfi að endurskoða í ljósi þess hve erfitt það er fyrir ráðherra að fylgja þeim eftir.

„Brot ráðherranna, Jóhönnu Sigurðardóttur og Ögmundar Jónassonar, eru ekki bara alvarleg, heldur líka viðhorf þeirra gagnvart úrskurðum kærunefndar jafnréttismála. Þau hafa bæði afskrifað þá með þeim orðum að þau séu ekki sammála niðurstöðu þeirra og hafa ekki gefið til kynna með neinu móti að þau ætli að breyta vinnubrögðum sínum. Staðreyndin er hinsvegar sú að lögum samkvæmt skiptir engu máli hvað ráðherrunum finnst um þessa niðurstöðu, það er niðurstaða kærunefndarinnar sem gildir,“ segir í ályktun stjórnar Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna í Reykjavík.