Ágúst Einarsson, fyrrverandi rektor Háskólans á Bifröst og núverandi formaður Framtakssjóðs Íslands, segir að ríkisstjórnin sé dauð og eigi að fara frá. Ágúst er í viðtali við Viðskiptablaðið sem kom út í dag.

„Ríkisstjórnin er búin að missa tiltrú flestra og tíminn hljóp frá henni. Hún eyddi svo miklum tíma og orku í Icesave-málið án þess að leiða það til lykta. Þar af leiðandi er hún dauð, en það getur tekið nokkuð langan tíma að lognast endanlega út af. Stjórnin er því miður sundurlaus og ráðherrar rífast opinberlega. Skilyrði lýðræðisins er að myndi menn meirihlutastjórn verða menn að hafa meirihluta og það hefur þessi stjórn ekki í mjög mörgum málum og þar á meðal í málum sem samið var um í stjórnarsáttmála.“

„Ríkisstjórn sem er með sífellda stjórnarandstöðu í sínum eigin ranni á að fara frá enda er hún í andstöðu við þingræðið. Hún hrindir engu í framkvæmd sem skiptir máli og tefur þar af leiðandi endurreisnina. Það er hins vegar eðli stjórnmálamanna að vera fljótir að telja sér trú um að þeir séu ómissandi.Staðreyndin er hins vegar sú að kirkjugarðar heimsins eru fullir af ómissandi fólki. Ég sat á Alþingi og þekki hinn pólitíska heim ágætlega. Auðvitað er vel meinandi fólk í öllum flokkum en flestir sjá að núverandi ástand gengur ekki til lengdar.“

-Nánar í Viðskiptablaðinu