Ríkisstjórn Slóveníu féll í kosningum sem haldnar voru í landinu í gær, viku fyrr en upphaflega var áætlað. Upp úr stjórnarsamstarfi Hófsama Miðflokksins við Sósíaldemókrata og Lýðræðisflokk ellilífeyrisþega eftir að hæstiréttur landsins felldi úr gildi niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja lestarlínu.

Ríkisstjórnin hafði samþykkt lagningu lestarteinanna til hafnarbæjarins Koper sem var eitt helsta baráttumál forsætisráðherrans Miro Cerar, leiðtoga Hófsama Miðflokksins. Andstæðingar lagningu brautarinnar náðu hins vegar að safna nægum undirskriftum til að knýja á um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Meirihluti kjósenda samþykkti síðan lagninguna, þrátt fyrir litla kosningaþátttöku en auk meirihluta þarf fimmtungur kjósenda að segja nei til að hún sé gild í þá átt að stöðva gildistöku laganna. Ástæðan fyrir því að hæstiréttur feldi þau úr gildi var sú að ríkisstjórnin hafði lagt fé til stuðnings baráttunnar fyrir atkvæðagreiðsluna við að fá járnbrautina samþykkta.

Stærsti flokkurinn fór úr 35 í 10%

Hófsami Miðjuflokkurinn sem leiddi ríkisstjórnina, fór í kosningunum nú úr tæplega 35% atkvæða árið 2014 niður í tæplega 10%.
Sósíaldemókratar fengu svipað mikið fylgi en höfðu verið með um 6% árið 2014 en Lýðræðisflokkur ellilífeyrisþega fór úr rúmlega 10% í tæp 5%. Samanlagður þingstyrkur ríkisstjórnarflokkanna fór úr 52 af 90 sætum niður í 25.

Stærsti sigurvegari kosninganna var Slóvenski lýðræðisflokkurinn, sem leiddur var af fyrrum forsætisráðherra landsins tvívegis, Janez Jansa.

Fékk flokkur hans 21 sæti og um fjórðung atkvæða, en hann lagði áherslu á trygg landamæri og stöðvun ólöglegs innflutnings inn í landið. Um hálf milljón hælisleitenda lögðu leið sína í gegnum þetta tveggja milljóna manna land í kjölfar yfirlýsingar Angelu Merkel um opin landamæri Þýskalands árið 2015.

Níu flokkar í heildina skipta þingsætum á milli sín

Næst stærstur var síðan flokkur Marjan Sarec sem er grínisti en hann fékk tæplega 13% atkvæða og 13 þingsæti. Róttækir vinstrimenn fengu um 9% og 9 þingsæti og kristilegir demókratar um 7% og 7 þingsæti. Listi Alenku Bratusek, fyrrum forsætisráðherra fékk svo 5% og fimm sæti en Slóvenski þjóðarflokkurinn fékk rúm 4% og 4 þingsæti. Loks fær ítalski og ungverski minnihlutinn í landinu 2 þingsæti.

Talið er líklegt að erfitt verði að mynda meirihluta í landinu, meðal annars því margir aðrir flokkar hafa lýst því yfir að þeir vilji ekki starfa með Slóvenska lýðræðisflokknum.