Ríkisstjórnin hefur formlega óskað eftir samstarfi við Alþjóða­gjaldeyris­sjóðinn um að koma á efnahagslegum stöðugleika á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Samstarf Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins felur í sér lánveitingu frá sjóðnum að jafnvirði 2 milljarðar bandaríkjadala og koma 830 milljónir af þeirri fjárhæð til greiðslu, þegar við staðfestingu stjórnar sjóðsins.

Forystumenn ríkisstjórnarinnar vilja á þessari stundu ekki upplýsa um skilyrði aðstoðar IMF. Blaðamannafundur stendur nú yfir í Ráðherrabústaðnum.

Þar sögðu þau Geir H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra að engin þau skilyrði yrðu gerð sem þau teldu að Íslendingar gætu ekki búið við.

Endurvekja trúverðugleika og traust

Meginmarkmiðið er meðal annars að endurvekja traust á íslenskum efnahag og ná stöðugu gengi krónunnar, sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra meðal annars á blaðamannafundi sem nú stendur yfir. Þá væri markmiðið að endurreisa íslenskt bankakerfi.

„Með samkomulagi við IMF tel ég að við fáum þann trúverðuleika sem við þurfum til að aðrar þjóðir komi að borðinu," sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra.