Engin ákvörðun var tekin um málefni Íbúðalánasjóðs á ríkisstjórnarfundi í morgun samkvæmt þvi sem Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, tjáði blaðamanni Viðskiptablaðsins þegar hann fór af fundinum rétt eftir klukkan 11. Hann sagði að niðurstöður starfshóps stjórnvalda um málefni Íbúðalánasjóðs hefðu verið lagðar fram í morgun. Hópurinn hefði skilað sér bréfinu og það væri byrjað að skoða það. Hins vegar hefðu engar ákvarðanir verið teknar. Það bíði til ríkisstjórnarfundar næsta þriðjudags.

Katrín Júlíusdóttir, fjármálaráðherra, vildi heldur ekki tjá sig um stöðu Íbúðalánasjóðs. Starfshópurinn var skipaður að hennar tillögu.

Vandi Íbúðalánasjóðs mörgum ljós

Vandi Íbúðalánasjóðs verður sífellt fleirum áhyggjuefni. Eins og greint var frá í Viðskiptablaðinu í gær, fimmtudag, hafa stjórnendur sjóðsins, höfundar Peningamála Seðlabankans og þau sem fylgjast með fjármálastöðugleika í landinu auknar áhyggjur af þróuninni. Útlánatap, aukin vanskil og neikvæður vaxtamunur hefur ýtt undir aukinn rekstrarvanda Íbúðalánasjóðs.

Beðið eftir pólitískri lausn

Viðskiptablaðið hefur greint frá þessum rekstrarvanda sjóðsins og beðið hefur verið eftir niðurstöðum starfshóps stjórnvalda til að ríkisstjórnin geti ákveðið næstu skref til að tryggja sjálfbæran rekstur Íbúðalánasjóðs án þess að skattgreiðendur þurfi að leggja honum til milljarða króna árlega næstu árin. Viðurkennt er að sjóðurinn þurfi að minnsta kosti 10-14 milljarða króna til að bæta eiginfjárstöðu sína en það leysir ekki rekstrarvanda til frambúðar.

Verðmyndandi upplýsingar

Nú þegar niðurstöður starfshópsins liggja fyrir er ljóst að fjölmargir einstaklingar á pólitíska sviðinu vita hvað þar er lagt til þótt ákvörðun um framtíð Íbúðalánasjóðs liggi ekki enn fyrir. Þessar upplýsingar geta haft veruleg áhrif á markaði með íbúðabréf í Kauphöllinni. Viðskipti hafa verið með íbúðabréf í dag en í skugga þessarar óvissu. Forsvarsmenn Kauphallarinnar hafa ekki getað tjáð sig um þessa stöðu.