Ríkisstjórnin mun funda með aðilum vinnumarkaðarins nú í vikunni til þess að finna lausn í yfirstandandi kjaradeilum. Er þannig rætt um að ríkið leggi eitthvað til málanna; eins og hækkun og samræming á húsaleigu- og vaxtabótum, lækkun skatta á leiguhúsnæði og fleira. Greint er frá þessu í Fréttablaðinu .

Þar kemur fram að atvinnurekendur telji viðleitni ríkisstjórnarinnar til að halda sér til hlés í þessum kjaraviðræðum hluta vandans. Hún þurfi taka þátt í því að smíða skynsamlegar lausnir, því annars komi það niður á kjaraviðræðum ríkisins við sína hópa.

Starfsgreinasambandið krefst 50 til 70 prósenta hækkunar fyrir alla félagsmenn í þriggja ára samningi. Önnur verkalýðsfélög gera jafnframt miklar kröfur um launahækkanir. Samtök atvinnulífsins telja kröfurnar ógna stöðugleika og segjast aldrei hafa staðið frammi fyrir jafnháum kröfum.