Íslendingar voru seinni til en flestar þjóðir að stofna sérstakan seðlabanka. Íslandsbanki og síðar Landsbankinn sáu um seðlaútgáfuna samhliða viðskiptabankastarfsemi. Þetta breyttist 1961 þegar lög um stofnun Seðlabanka Íslands voru samþykkt. „Það þótti nauðsynlegt að stofna nýjan seðlabanka og skilja að við viðskiptabankastarfsemina. Það var eðlileg þróun í að gera hagkerfið sambærilegt við það sem hvarvetna viðgengst,“ segir Jóhannes Nordal, sem var seðlabankastjóri frá stofnun bankans og fram til ársins 1993.

Seðlabankinn var þó ekki fyllilega sjálfstæður í þeim skilningi sem lagt er í það hugtak í dag. Ef upp kæmi ágreiningur milli Seðlabanka og ríkisstjórnar bar bankanum að una stefnu ríkisstjórnarinnar. „Það var eitt af lykilatriðunum í upphaflegu lögunum um Seðlabankann. Það má segja að það hafi verið veikleiki, sem ekki var leiðréttur fyrr en sett voru lög um verðbólgumarkmið,“ segir Jóhannes.

Margoft kom upp ágreiningur milli Seðlabankans og stjórnvalda um hvert vaxtastigið ætti að vera þar sem ríkisstjórnin hafði síðasta orðið. „Það er ekki fyrr en eftir árið 1983 sem þetta breytist. Þá komst í gegn að vextir voru gefnir frjálsir og þá var hægt að koma á virkum peningamarkaði. Það átti verulegan þátt í því að tryggja betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum og gera þjóðarsáttina 1990 mögulega. Eftir það náðist miklu meiri stöðugleiki.“

„Það hefur verið mjög mikil umræða í heiminum um hvað mikið sjálfstæði Seðlabankinn þarf að hafa til þess að geta fylgt markvissri stefnu án of mikilla áhrifa frá pólitískum sveiflum. Það var ekki fyrr en á síðustu árum mínum í bankanum sem byrjað var að ræða um að taka upp formlega reglu um verkaskiptingu milli ríkisstjórnar og seðlabanka.“

Ný heildarlög voru ekki sett um Seðlabankann fyrr en fjörutíu árum eftir stofnun bankans, árið 2001. Í þeim lögum var skýrt var kveðið á um sjálfstæði Seðlabankans. „Það hafa margir verið þeirrar skoðunar að þetta sé ekki lýðræðislegt. Að það sé stofnun sem sé algjörlega óháð þjóðarviljanum eins og hann kemur fram í stjórnmálunum. Vandinn hefur verið sá hvar á að draga línuna milli þess að taka ákvarðanir á faglegum grunni og svo taka tillit til stjórnmálalegra sjónarmiða og markmiða. Það virðist hingað til hafa gengið býsna vel eftir að tekið var upp upp verðbólgumarkmið þar sem verkaskiptingin er skýr. Seðlabankinn á að ná ákveðnum markmiðum og er frjálst að beita ákveðnum tækjum til að ná þessum markmiðum. En markmiðið sjálft er ákveðið af ríkisstjórninni eða með samkomulagi við Seðlabankann. Á meðan hann er að vinna að þessum markmiðum skiptir ríkisstjórnin sér ekki af starfi hans,“ segir Jóhannes.

Nánar er rætt við Jóhannes Nordal í 80 ára afmælisriti Frjálsrar verslunar. Finna má blaðið á helstu sölustöðum. Hægt er að kaupa blaðið hér eða gerast áskrifandi hér .