Ef niðurstaða nýrrar könnunar Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis yrðu úrslit komandi kosninga myndi ríkisstjórnin halda velli með 33 manna meirihluta.

Sjálfstæðisflokkur bætir við sig

Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur, með 34,6% og 24 þingmenn, sem eru 7 prósentustig meira en í síðustu könnun sem þessir aðilar gerðu 6. og 7. september síðastliðinn.Í síðustu kosningum fékk flokkurinn 19 þingmenn.

Framsóknarflokkurinn bætir eilítið við sig frá fyrri könnun og fengju þeir 12,6% og 9 þingmenn.

Samanlagt fengju því ríkisstjórnarflokkarinr 33 af 63 þingsætum og gætu því haldið starfhæfum meirihluta ef þetta yrðu niðurstöður kosninganna. Þessar niðurstöður eru nokkuð frábrugðnar niðurstöðum könnunar MMR sem birtust í gær.

Stjórnarandstaðan fengi 30 þingmenn, þar af Píratar 13

Píratar tapa hins vegar tæpum 9 prósentustigum og fara niður í 19,9%. Það þýðir að Píratar yrðu næst stærsti þingflokkurinn með 13 þingmenn, en í dag eru þeir með 3.

Fylgi Vinstri grænna stendur í stað milli kannana, þeir mælast með 12,9% og fengju 8 þingmenn, Viðreisn mælist síðan með 7,3% fylgi sem eilítil viðbót frá síðustu könnun, sem gæfi þeim fimm menn. Samfylkingin tapar hins vegar lítillega fylgi og fá 5,9% sem myndi þýða 4 þingmenn en Björt framtíð næði ekki inn manni með 3,6% fylgi.