Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gærkvöldi mun tekjuskattur hækka um 1% á næsta ári, úr 22,75% í 23,75%.

Ennfremur mun ríkisstjórnin heimila hækkun útsvars sveitarfélaganna sem getur leitt til hækkunar tekna þeirra og kemur til móts við aukaframlög í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem að óbreyttu munu falla niður um næstu áramót.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Í tillögum ríkisstjórnarinnar sem lagðar eru fyrir Fjárlaganefnd Alþingis við 2. umræðu fjárlaga er gert ráð fyrir að sparnaður í rekstrarútgjöldum og tekjutilfærslum nemi u.þ.b. 24 milljörðum króna eða um 5,7% af heildarútgjöldum ríkissjóðs til þessara málaflokka.

Þar er bæði um að ræða hagræðingu í núverandi rekstri og frestun verkefna sem ekki eru komin til framkvæmda.

Í tilkynningunni kemur fram að með þessum og fleiri aðgerðum mun halli ríkissjóðs á næsta ári verða 165 – 170 milljarðar króna en hefði að óbreyttu geta orðið u.þ.b. 215 milljarðar.

Þá kemur fram að í kjölfar þeirra gríðarlegu breytinga sem orðið hafa á efnahagsumhverfinu frá því að fjárlagafrumvarp ársins 2009 var lagt fram á Alþingi þann 1. október s.l. hefur áætlun um tekjur og gjöld ríkissjóðs á árinu 2009 verið endurskoðuð.

„Ljóst er að tekjur lækka mikið frá fyrri áætlunum og gjaldaliðir hækka vegna hækkandi verðlags og gengisfalls íslensku krónunnar,“ segir í tilkynningunni þar sem tekið er fram að halli ríkissjóðs hafi stefnt að óbreyttu í 215 milljarða króna á árinu 2009.

Sjá vef fjármálaráðuneytisins.