Ríkisstjórnin kynnti í morgun víðtækar aðgerðir til þess að lækka matvælaverð hér á landi. Áætlað er að aðgerðirnar geti leitt til tæplega 16% lækkunar á matvælaverði og í heild til 2,7% lækkunar á neysluverðsvísitölu á næsta ári.

Þá á kaupmáttur heimilanna aukast að sama skapi. Áætlað er að þessar aðgerðir kosti ríkissjóð um sex milljarða á næsta ári og um sjö milljarða miðað við heilt ár.

Geir H. Haarde kynnti þessar aðgerðir í ráðaherrabústaðnum í morgun ásamt Árna M Mathiesen, fjármálaráðherra, Jóni Sigurðssyni viðskiptaráðaherra og Guðna Ágústssyni landbúnaðarráðherra.

"Þetta eru víðtækar aðgerðir sem koma til með að hafa mikil áhrif," sagði Geir H. Haarde. Jón Sigurðsson sagði að vinnan við þessar breytingar hafi verið sett í gang í tíð Halldórs Ásgrímssonar sem forsætisráðherra og mjög hafi síðan verð vandað til verka. "Þetta eru aðgerðir sem koma allri þjóðinni til góða en eru ekki á kostnað landbúnaðarins eða launafólksins í afurðastöðvunum."

Lögðu ráðherrarnir áherslu á að virkt verðlagseftirlit yrði í gangi fram að þeim tíma sem breytingarnar ganga í gildi til að verslunin reyndi ekki að hagnast sérstaklega á þessum breytingum.

Árna M Mathiesen sagði að ef einhver tími væri réttur til að fara í slíkar aðgerðir þá væri það einmitt núna. Þá yrði þetta í eðlilegri vinnslu fjárlaganna fram að áramótum. Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðaherra sagðist munu setja í gang nefnd með fulltrúum úr landbúnaðarráðuneytis, fjármálaráðuneytis og viðskiptaráðuneytis sem á að fara yfir tollskrána. Og Guðni klykkti út með því að segja: "Það munu allir kokkar í eldhúsum landsins gleðjast."

Aðgerðirnar fela í sér að vörugjöld af innlendum og erlendum matvælum, öðrum en sykri verða felld niður að fullu 1. mars 2007. Þá verður virðisaukaskattur af matvælum lækkaður úr 14 í 7% og sama gildir um virðisaukaskatt af annarri þjónustu og vörum sem nú bera 14% skatt. Það á við húshitun, hótelgistingu, bækur blöð og tímarit. Þá verður virðisaukaskattur af öðrum matvælum sem borið hefur 24% skatt lækkaður í 7% frá sama tíma. Virðisaukaskattur af veitingaþjónustu mun einnig lækka úr 24% í 7%.

Almennir tollar á innfluttum kjötvörum úr 2. kafla tollskrár (allar helstu kjötvörur) verða lækkaðir um allt að 40% frá 1. mars 2007. Samhliða þessu verður áfram unnið að frekari gagnkvæmum tollalækkunum og bættu markaðsaðgengi gagnvart helstu viðskiptalöndum Íslands í milliríkjasamningum. Þeim er einnig ætlað að tryggja útflutningshagsmuni íslensks atvinnulífs.

Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði hafa ákveðið raunlækkun á heildsöluverði mjólkurvara á næstu 12 mánuðum sem náð verði með verðstöðvun á þessum tíma, þ.e. sama verði og verðlagsnefnd búvöru ákvað þann 1. janúar 2006.